24.12.2006 | 18:17
Gleðileg jól frá Grænlandi.
Best að byrja á veðurfréttum til að hressa svolítið uppá fólk heima í hitabylgjunni. Hér í Nuuk kl 15.00 aðfangadag er heiðskírt og logn, 13 stiga frost. Snjór yfir öllu. Getur ekki verið betra. Norðurljósin léku við okkur í gærkvöldi, dansandi um himininn. Og meira að segja stjörnuhrap með langan hala. Jólagjöfin í ár. Svo var bara að óska sér einhvers. Ég diplóinn óskaði að sjálfsögðu árs og friðar í heiminum , og stórann lottóvinning í desert.
Eitt af því allra besta við að búa á Grænlandi er að jólin og allt í kringum þann tíma er mjög líkt og á Íslandi. Þessi tími er helgaður fjölskyldunni, matnum, og að sjálfsögðum gjöfum. Matargatið ég get varla beðið eftir að komast að borðinu í kvöld, á morgunn, og alla hina dagana. Hreindýrakjöt, rjúpa, hangikjöt, hamborgahryggur, sjósoðnar rækjur, hunangslegnar svartfuglsbringur o.s.frv.
Eins og sjá má á þessum skrifum gætir töluverðrar eigingirni. Að sjálfsögðu er nærvera við fjölskylduna hámark á þessum tíma. Yngstu börnin koma heim úr skóla erlendis frá. Barnabörnin koma núna á hverjum degi, og stunum oft á dag í heimsókn. dásamlegur tími.
En því má bæta við að auðvitað er söknuður heim til Íslands. Allt annað væri bara svindl. Þar eru mínar rætur. Ættingjar og vinir. Stórt knús til þeirra.
Fyrir hönd minnar fjölskyldu sendi ég bestu jólakveðjur heim á fornar slóðir.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.