Timmi Jammi Jútt

Bloggið hefur stytt mér stundir. Að lesa það, meina ég. Þegar maður er langt að heiman, eru fréttir kærkomnar. Og bloggið gefur manni góða möguleika að fylgjast með hvað landinn er að pæla. Eftir að maður klikkar sig inná mbl.is og les fréttir dagsins að heiman, er bloggið gott sem eftirfréttir. Einskonar eftirréttur.  En svo kom sko að því að mér fannst kannski tími til kominn að prufa þetta sjálfur. Blogga smá frá Grænlandi.

 Og hvað svo? Hvers vegna Grænland?

Í æsku voru veðurfréttir eitt af því fyrsta sem kveikti áhuga minn á Grænlandi. Kannski ekki svo mikið hvernig veðrið var á þeim slóðum, heldur meira staðarnöfnin. Timmi Jammi Jútt (Timmiarmiut) hljómaði svo frábærlega að mínu mati. Kúlúsúkk (Kulusuk) frábært. Mér til mikillar gleði komst ég að því í minni fyrstu heimsókn á þessar slóðir 1973 að Grænlendingar höfðu ekki farið varhluta af veðurfréttum Útvarp Reykjavík. Ég hitti miðaldra grænlending sem vildi endilega tala við mig þegar hann komst að því að ég var frá Íslandi. Og viti menn hann sagði, og það með miklu stolti, og orðrétt suð suð austan fjórir. Kæra blogg. Mér fannst ég vera kominn heim.

 Annað sem ég man eftir úr æsku er bók úr bókasafni móðurafa míns. Þessi bók var í sérstöku uppáhaldi hjá mér, og er enn. Bókin heitir Grænland- Lýsing lands og þjóðar, og höfundur er Guðmundur Þorláksson. Útgefin 1948. Ári áður en ég fædddist. Ég blaðaði í þessarri bók sem polli og dáðist af myndunum af landi og þjóð. Eitt af því sem mér fannst athyglivert á þeim myndum sem er í bókinni er að það skyldu vera kindur og hestar í Grænlandi. Og á bls. 115 er mynd af manni með hest. Og þar stendur " Grænlenski bóndinn Abel á um 500 fjár, þrjá hesta og eina kú" Frábært. Og ég má til með að bæta því við að þessi ágæti maður varð síðan tengdapabbi minn. Kannki meira um það seinna.

Nú bý ég í Grænlandi. Hef búið hér með hléum í samanlagt 20 ár. Hér er gott að vera.Smile 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband